Velkomin á upplýsingasíðu um lýðheilsu á Íslandi

18.11.15

Framboð á sykri og gosdrykkjum minnkaði árið 2014

Eina heila árið sem hærri álögur voru á sykri og sykurvörum

Fæðuframboð á Íslandi 2014
Embætti landlæknis birtir reglulega upplýsingar um fæðuframboð á Íslandi og þótt þær veiti ekki beinar upplýsingar um neyslu gefa þær vísbendingar um þróun á mataræði þjóðarinnar.

Aukning í grænmetisframboði
Ef litið er á þróun á framboði á fersku grænmeti kemur í ljós að það jókst úr 50 kg/íbúa árið 2013 í 53 kg/íbúa árið 2014. Framboð á ferskum ávöxtum stóð hins vegar í stað og er 61 kg/íbúa. Framboð á grænmetisvörum breyttist lítið og er 17 kg/íbúa en framboð á ávaxtavörum dróst saman, úr 26 kg/íbúa í 22 kg/íbúa.

Við þurfum enn að auka neyslu á ávöxtum og grænmeti til að takmarkinu um fimm skammta, eða 500 grömm, af grænmeti og ávöxtum sé náð. Rétt er að vekja athygli á því að ávaxtasafar teljast ekki lengur með í fimm skömmtum á dag.

Enn minnkar framboð á drykkjarmjólk
Framboð á drykkjarmjólk (nýmjólk, léttmjólk og undanrennu) minnkar í heildina en ekki eru upplýsingar um einstakar tegundir drykkjarmjólkur. Einnig minnkar heldur framboð á sýrðum mjólkurvörum. Framboð á skyri stendur í stað en osturinn fer lítillega upp á við milli ára. Mælt er með tveimur skömmtum af fituminni, ósykruðum eða lítið sykruðum mjólkurvörum án sætuefna daglega fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri.

Framboð á sykri og gosdrykkjum minnkaði
Sykurframboðið minnkaði árið 2014, eina heila árið sem hærri álögur voru á sykri og sykurvörum, og var þá 42 kg/íbúa en árið 2013 var það 48 kg/íbúa. Flökt í sykurframboði á milli ára getur stafað af mismiklum birgðum um áramót þar sem sykur er vara með langt geymsluþol. Því er rétt að skoða meðaltalsframboð nokkurra ára þegar sykur er annars vegar.

Sé meðaltal næstu fimm ára á undan borið saman við framboðið 2014 minnkar það úr 47 kg/íbúa að meðaltali 2009–2013 í 42 kg/íbúa árið 2014. Sykurneysla á Íslandi er mikil borið saman við önnur Norðurlönd en minnst er hún í Noregi og Finnlandi, um 28–30 kg/íbúa (árin 2012 og 2013).

Gosdrykkjaneysla er óhóflega mikil hér á landi og á drjúgan þátt í hinni miklu sykurneyslu. Þrátt fyrir að gosdrykkjaframboðið (gos- og vatnsdrykkir með bæði sætu- og bragðefnum) hafi minnkað verulega milli ára var það 133 lítrar/íbúa árið 2014, eða um 2,5 lítrar/íbúa á viku.

Af Norðurlöndunum er framboð gosdrykkja minnst í Finnlandi, 40 lítrar/íbúa. Rannsóknir sýna að mikil neysla á sykurríkum vörum eykur líkur á offitu og tannskemmdum. Mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum getur auk þess aukið líkur á sykursýki af tegund 2. Mælt er með því að drekka vatn, besta svaladrykkinn.

Sælgætisframboðið helst nokkuð svipað milli ára og er um 18 kg/íbúa en það samsvarar um 350 g/íbúa á viku. Mælt er með því að gæta hófs í neyslu á sælgæti og fá sér frekar hnetur, fræ og ávexti.

Kjötframboð stendur nánast í stað
Heildarkjötneyslan stendur nánast í stað milli ára. Það varð örlítil aukning á neyslu svínakjöts en aðrar kjöttegundir standa nánast í stað. Mest var neyslan á alífuglakjöti, 27 kg/íbúa, en þar á eftir kemur lambakjöt, 20 kg/íbúa, og svínakjöt er í þriðja sæti, 19 kg/íbúa.

Ráðlagt er að takmarka neyslu á rauðu kjöti við 500 g á viku. Sérstaklega skal takmarka neyslu á unnum kjötvörum. Þetta samsvarar tveimur til þremur kjötmáltíðum á viku og smávegis af kjötáleggi.

Ekki hafa verið birtar upplýsingar fyrir fiskframboð síðan 2007, en rétt er að minna á að ráðlagt er að borða fisk tvisvar til þrisvar sinnum í viku sem aðalrétt og æskilegt er að ein af fiskmáltíðunum sé feitur fiskur.

Feitmetisframboð eykst milli ára
Heildarfeitmetisneyslan er heldur að færast upp á við. Það varð lítils háttar aukning á neyslu smjörs og einnig á olíu og öðru feitmeti. Smjörlíkisneyslan var hins vegar óbreytt og neysla á smjörva stóð nokkuð í stað, þó heldur upp á við. Fituminna viðbit og fituminna smjörlíki stóð nokkuð í stað, dróst þó heldur saman. Rálagt er að auka hlut mjúkrar fitu í fæði á kostnað harðrar fitu.

Upplýsingar um vinnslu fæðuframboðs
Tölurnar sem hér eru birtar eru reiknaðar í kg/íbúa/ár samkvæmt jöfnunni: fæðuframboð = framleiðsla + innflutningur – útflutningur – önnur not (t.d. í dýrafóður).

Fæðuframboðið nær í flestum tilfellum til lítið unninnar vöru, t.d. er kjöt gefið upp í heilum skrokkum með beini, fiskur er gefinn upp óslægður, en í stöku tilfellum er um fullunnar vörur að ræða, t.d. mjólk, mjólkurvörur og smjörlíki. Tölurnar taka ekki tillit til rýrnunar sem verður við framleiðslu, á lagerum, í verslunum og á heimilum.
Skoða:
Fæðuframboð á Íslandi 2014 (xls)
Framboð iðnaðarframleiddra vara 2014 (xls)