Velkomin á upplýsingasíðu um lýðheilsu á Íslandi

Lög félagsins

Félag um lýðheilsu

Lög samþykkt á almennum fundi í

Reykjavík þ. 3. desember 2001

Lýðheilsa varðar félagslega og heilsufarslega þætti þjóða og hópa. Lýðheilsa miðar að því að bæta heilbrigði, lengja líf og bæta lífsgæði þjóða og hópa með almennri heilsuvernd, heilsueflingu, sjúkdómavörnum og annarri heilbrigðisþjónustu.

1. grein

Nafn félagsins

Félagið heitir Félag um lýðheilsu (á ensku Icelandic Association of Public Health). Starfssvæði þess er landið allt. Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

2. grein

Tilgangur félagsins

Félag um lýðheilsu er félag fagmanna og áhugafólks um lýðheilsu á Íslandi. Tilgangur félagsins er að:

  • Hvetja til þess að heilbrigðissjónarmiða sem eru byggð á bestu þekkingu á hverjum tíma sé gætt við stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda.
  • Vekja athygli almennings á möguleikum til að hafa áhrif á eigið heilbrigði og leiðir til heilsueflingar.
  • Hvetja til samstarfs þeirra sem starfa á vettvangi lýðheilsu og þeirra sem geta haft áhrif á heilsufar og velferð landsmanna, s.s. sveitarfélaga, skóla og stofnana.
  • Vinna að bættu heilsufari þjóðarinnar með því að standa vörð um gæði þjónustu á sviði lýðheilsu og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
  • Stuðla að menntun, þróun og rannsóknum á sviði lýðheilsu og beitingu viðurkenndra aðferða við mat á árangri verkefna.

Starf félagsins grundvallast á hugmyndum um jafnræði til heilbrigði. Félagið leggur áherslu á félagslegt réttlæti, jafnrétti, tjáningarfrelsi, frið, gagnkvæma virðingu og umburðarlyndi í samskiptum og skoðanaskiptum. Félagið skal eiga samskipti við félagasamtök um lýðheilsu á erlendum vettvangi.

3. grein

Aðild að félaginu

Rétt til aðildar að félaginu eiga fagmenn og áhugafólk um lýðheilsu. Umsókn um aðild er yfirlýsing um stuðning við tilgang félagsins og þær hugmyndir sem félagið grundvallast á (sbr. 2. gr.). Umsókn skal berast stjórn bréflega og tekur hún ákvörðun um aðild hverju sinni.

4. grein

Réttindi og skyldur félagsmanna

Félagsmenn hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins. Rétt til að greiða atkvæði á fundum félagsins og kjörgengi í stjórn og nefndir hafa einungis þeir sem greitt hafa félagsgjöld. Allir félagsmenn eiga rétt á fréttabréfi félagsins og öðru efni sem félagið gefur út.

Félagsmönnum ber að virða lög félagsins, fundarsköp, fundarsamþykktir og ákvarðanir stjórnar. Félagsmönnum er óheimilt að tjá sig á opinberum vettvangi í nafni félagsins nema með samþykki stjórnar.

Félagsmönnum er skylt að greiða félagsgjald samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni. Félagsmaður sem ekki greiðir félagsgjöld í 2 ár missir öll réttindi í félaginu.

5. grein

Aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Hann skal haldinn árlega að hausti. Allir félagsmenn eiga rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðarétt. Fundurinn skal boðaður félagsmönnum skriflega með minnst sjö daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina fundarefni svo og allar tillögur sem ætlast er til að bornar verði undir atkvæði. Stjórn félagsins skipuleggur og ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar. Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

1.       Setning fundar og kynning dagskrár.
2.       Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3.       Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfstímabili.
4.       Reikningar félagsins lagðir fram.
5.       Starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta starfstímabils lagðar fram.
6.       Ákvörðun félagsgjalda.
7.       Lagabreytingar
8.       Kosning formanns til eins árs.
9.       Kosning gjaldkera, ritara, tveggja meðstjórnenda, tveggja varamanna og tveggja skoðenda reikninga til tveggja ára.
10.    Kosning í nefndir félagsins.
11.    Önnur mál.

Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum, þó þarf a.m.k. 2/3 atkvæða til lagabreytinga (sjá gr. 6). Komi fram tillaga um að leggja félagið niður þarf samþykki a.m.k. 2/3 hluta atkvæðisbærra félagsmanna

Halda skal gerðarbók um aðalfundi félagsins og skrá allar samþykktir og ákvarðanir. Fundargerðir aðalfunda skulu birtar eigi síðar en fjórum vikum eftir að aðalfundur er haldinn. Málefni sem óskast tekin fyrir á aðalfundi skulu berast stjórn félagsins að a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund.

6. grein

Lagabreytingar

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Tillaga til lagabreytingar skal berast stjórn með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Ef tillaga til lagabreytingar verður tekin til meðferðar á aðalfundi skal þess getið í fundarboði skla og gerð grein fyrir tillögunni þar.

 

7. grein

Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum og tveimur til vara sem kosnir eru á aðalfundi. Í stjórn eru, auk formanns, ritari sem jafnframt er varaformaður, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Ef stjórnarmaður gengur úr félaginu eða hættir stjórnarstörfum ber varamanni að taka sæti hans.

Stjórn fer með málefni félagsins á milli aðalfunda og annast framkvæmd á ákvörðunum hans. Stjórnarfundir skulu vera a.m.k. ársfjórðungslega. Halda skal gerðarbók um það sem fjallað er um á stjórnarfundum og skal hún vera aðgengileg félagsmönnum. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef þrír stjórnarmenn hið fæsta sitja fundinn. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í kosningum um ályktanir. Stjórn félagsins skal hafa umsjón með rekstri félagsins og bera ábyrgð á fjárreiðum þess. Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja frammi a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund ár hvert. Stjórn tekur ákvarðanir um ráðningu starfsmanna félagsins. Stefnt skal að stofnun nefnda um tiltekin áhugasvið félagsmanna. Stefnt skal að stofnun sjóða á vegum félagsins til styrktar rannsóknum og þróunarstarfi á sviði lýðheilsu. 

8. grein

Lýðheilsuþing

Lýðheilsuþing skal halda að minnsta kosti annað hvert ár. Á lýðheilsuþingi skal fjalla um málefni á sviði lýðheilsu, hérlendis sem erlendis. Öllum er heimil seta á lýðheilsuþingi og skal til þess boðað með almennri auglýsingu með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Stjórn ber ábyrgð á framkvæmd lýðheilsuþings og sér um skipulagningu þess eða felur hana öðrum félagsmönnum eða starfsmönnum.

9. grein

Félagsfundir

Auk aðalfundar skal halda félagsfund árlega og hvenær sem stjórn félagsins álítur það nauðsynlegt. Stjórn ber að boða til félagsfundar ef tíu eða fleiri félagsmenn óska þess formlega. Til félagsfundar skal boðað með almennri auglýsingu með a.m.k. sjö daga fyrirvara. Halda skal gerðarbók um það sem fjallað er um á félagsfundum og skal hún vera aðgengileg félagsmönnum.

10. grein

Gildistími

Lög þessi öðlast gildi á stofnfundi félagsins.