Velkomin á upplýsingasíðu um lýðheilsu á Íslandi

Félag um lýðheilsu

Félag um lýðheilsu var stofnað þ. 3. desember 2001. Hugmyndin að slíkum félagsskap kviknaði á námskeiði um lýðheilsu á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands í apríl 2001. Á fundi sem haldinn var í maí komu fulltrúar margra faghópa, félaga og stofnana og lýstu fundarmenn sig reiðubúna til að vinna að stofnun slíks félags. Fundarmenn litu á félagið sem tækifæri til að stilla saman strengi og vinna að nýjum verkefnum á sviði forvarna og heilsueflingar. Félaginu er ætlað að verða nokkurs konar regnhlífarsamtök áhugafólks um lýðheilsu á Íslandi.

Félag um lýðheilsu er félag fagmanna og áhugafólks um lýðheilsu á Íslandi. Tilgangur félagsins er að:
* Hvetja til þess að heilbrigðissjónarmiða sem eru byggð á bestu þekkingu á hverjum tíma sé gætt við stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda.
* Vekja athygli almennings á möguleikum til að hafa áhrif á eigið heilbrigði og leiðir til heilsueflingar.
* Hvetja til samstarfs þeirra sem starfa á vettvangi lýðheilsu og þeirra sem geta haft áhrif á heilsufar og velferð landsmanna, s.s. sveitarfélaga, skóla og stofnana.
* Vinna að bættu heilsufari þjóðarinnar með því að standa vörð um gæði þjónustu á sviði lýðheilsu og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
* Stuðla að menntun, þróun og rannsóknum á sviði lýðheilsu og beitingu viðurkenndra aðferða við mat á árangri verkefna.

Starf félagsins grundvallast á hugmyndum um jafnræði til heilbrigði. Félagið leggur áherslu á félagslegt réttlæti, jafnrétti, tjáningarfrelsi, frið, gagnkvæma virðingu og umburðarlyndi í samskiptum og skoðanaskiptum. Félagið skal eiga samskipti við félagasamtök um lýðheilsu á erlendum vettvangi.

Geir Gunnlaugsson, læknir og lýðheilsufræðingur