Velkomin á upplýsingasíðu um lýðheilsu á Íslandi

Lög og reglur

1. gr.  Nafn félagsins er „Félag íslenskra lýðheilsufræðinga“.

2.gr.  Heimili félagsins er í Háskólanum í Reykjavík, Ofanleiti 2, 103 Reykjavík og varnarþing þess er í Reykjavík.

3.gr.  Félagið er fagfélag lýðheilsufræðinga á Íslandi.

4.gr.  Tilgangur og markmið félagsins eru að:

a) auka skilning á mikilvægi sérfræðiþekkingar í lýðheilsu
b) kynna lýðheilsu og fyrir hvað sú fræðigrein stendur
c) stuðla að vitundarvakningu og standa vörð um mikilvægi heilsueflingar og 1. stigs forvarna
d) viðhalda tengslum milli nemenda og fræðastofnana
e) efla tengsl milli nemenda og lýðheilsufræðinga
f) koma á og styrkja fagleg tengsl milli lýðheilsufræðinga
g) koma á og efla fagleg tengsl almennt á milli þeirra sem starfa að lýðheilsumálum
h) halda a.m.k. eina málstofu á ári og gefa árlega út fréttabréf og/eða halda úti virkri heimasíðu.

5. gr. – Aðild að félaginu geta þeir öðlast sem lokið hafa a.m.k. 60 ECTS einingum á háskólastigi í lýðheilsufræðum. Aukaaðild að félaginu geta þeir öðlast sem stunda nám í lýðheilsufræðum á háskólastigi en hún veitir þó hvorki kjörgengi né kosningarétt. Aukaaðild verður fullgild þegar félagi hefur lokið a.m.k. 60 ECTS og tilkynnir það skriflega eða með tölvupósti til stjórnar. Stjórn félagsins skal meta þá sem sækja um aðild. Um aðild aðfélaginu skal sækja skriflega eða með tölvupósti til stjórnar. Óski félagi aðganga úr félaginu, skal hann senda stjórn félagsins úrsögn sína, skriflega eðameð tölvupósti, enda sé hann skuldlaus við félagið.

6.gr.  Stjórn félagsins skal skipuð sjö félagsmönnum sem skipta með sér verkum formanns, ritara, gjaldkera og meðstjórnenda á fyrsta fundi nýrrar stjórnar. Á aðalfundi félagsins skal kjósa, til tveggja ára í senn, þrjá nýja menn í stjórn annað árið og fjóra hitt árið. Einnig skal kjósa tvo varamenn í stjórn.

7.gr.  Aðalfund skal halda fyrir 1. apríl ár hvert og skal hann boðaður skriflega eða með tölvupósti með þriggja vikna fyrirvara. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála á aðalfundi nema þegar um lagabreytingar er að ræða, þá þarf 2/3 fundarmanna. Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

8.gr.  Dagskrá aðalfundar skal vera:

a) skýrsla stjórnar
b) reikningar
c) lagabreytingar
d) kosning stjórnar auk tveggja skoðunarmanna reikninga félagsins
e) önnur mál.

9.gr.  Árgjald er ákveðið á aðalfundi. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Gjalddagi árgjalds er 1. apríl og eindagi 15. maí ár hvert. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis fullgildir félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið á síðasta reikningsári.

10. gr. Stjórn félagsins kveður til félagsfundar þegar hún telur þess þörf, eða þegar 1/3 hluti félagsmanna óskar þess skriflega. Félagsfundir skulu boðaðir á sama hátt og aðalfundir. Fundarefni skal tilgreint í fundarboði.

11.gr.  Lögum þessum verður aðeins breytt á löglega boðuðum aðalfundi ef 2/3 fundarmanna eru samþykkir. Breytingartillögur skulu hafa borist stjórn tveimur vikum fyrir aðalfund. Stjórn þarf að kynna tillögur að lagabreytingum fyrir félagsmönnum viku fyrir aðalfund.

12.gr.  Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi og þurfa 2/3 fundarmanna að samþykkja slitin. Aðalfundur, þar sem félaginu er slitið, ákveður hvað gera skuli við eignir félagsins.

13.gr.  Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins 5. júní 2007, endurskoðuð á aðalfundi félagsins þann 28. febrúar 2008 og þann 16. mars 2010.